Blogg

Gleðileg jól :)

Elsku fólk!

Enn á ný er Jesúbarnið rétt við hornið, reiðubúið til að koma með hátíðina í hjarta okkar. Þetta litla kríli sem kom í heiminn fyrir 2000 árum færði okkur öllum hinn sanna boðskap að kærleikurinn er það sem brúar bilið á milli manna.

Í dag er síðasti kennsludagurinn á þessu ári í grunnskólum landsins. Á aðventunni hafa þúsundir leikskóla- og grunnskólabarna notið þess að koma í kirkjuna sína og átt þar góða stund. Á jólunum fagnar kristið fólk fæðingu frelsara síns og er kirkjan tilvalin vettvangur til þess að efla menningarlæsi ungmenna og fræða þau um kærleikann, umburðarlyndi og samkennd með náunganum.

Kirkjur landsins standa þér og þínum opnar alla hátíðina og hægt er að finna dagskrá þeirra inn á kirkjan.is

Það er ósk okkar að þú og fjölskylda þín eigið yndisleg jól saman, jól uppfull af samverustundum, kærleika, smákökum og hlýju.

Megi Guð og allt það góða, gefa ykkur allt það besta á nýju ári!

Gleðileg Jól!

Jólasnjór

Bænir

Aðventan er annasamur tími. Í kirkjum landsins er nóg um að vera!

Í Laugardalnum fengu fermingarbörn í síðustu samverunni fyrir jól að skapa með eigin orðum bænarefni fyrir hátíðarnar.

Verkefnið var einfalt;

Unglingarnir dreifðu sér um alla kirkjuna og íhuguðu í einrómi hver væri þeirra raunverulega jólaósk. Hvað myndu þau ræða við Guð ef enginn annar væri að hlusta, ef þau gætu sagt honum hvað sem er. Jafnvel beðið um hvað sem er?Stundum gleymum við í dagsins önn að setja í orð eigin hugsanir og langanir.

Fermingarbörnin skiluðu í lok stundar samanbrotnum miða í lokaðan poka með því loforði að ekki væri hægt að rekja miðana beint til þeirra.

Hér eru nokkur dæmi um það sem þau skrifuðu á miðana sína:

 „Góði Guð, ég vildi að amma gæti ennþá verið með okkur.“

 „Faðir vor, láttu koma frið á jörðu!“

 „Guð, mig langar að foreldrar mínir byrji aftur saman.“

 „Að fjölskylda mín standi alltaf saman og munum að við erum fjölskylda.“

 „Ég vildi óska að afi hefði ekki fengið krabbamein. Af hverju fær fólk krabbamein?“

 „Ég vil vera góður í öllu!“

„Að fjölskylda mín gæti verið öll saman á jólunum. Það gekk ekki vel síðast.“ 

„Að pabbi mætti vera hjá okkur á jólunum“

 Útkoman var allt í senn, falleg, einlæg og stundum sorgleg. Bænarefni unglinganna endurspegla svo sterkt hjartans mál okkar allra á aðventunni. Við erum með hugann við þá sem standa okkur næst, fjölskyldutengsl, gleði, sorg og missi. Góðar minningar um liðna tíma og þrá að bæta það sem er brotið.

 

 

Nú ríkir eftirvænting!

Aðventa er tími eftirvæntingar og vonar. Við bíðum komu Krists.

Við tendrum ljós á aðventukransinum og myrkrið víkur undan birtunni. Ljósið veitir okkur von og hlýju og hjálpar okkur að komast í gegnum myrkasta skammdegið.

Fermingarfræðsla er yfirleitt með óhefðbundnu sniði í aðdraganda jólanna. Formleg kennsla er lögð til hliðar og unglingarnir fá tækifæri til að mæta í helgistundir, athafnir og félagsstarf sem fer fram í kirkjum landsins. Nú er tími til að njóta!

Desember er tilvalinn tími fyrir fermingarbörn til þess að kynnast og taka þátt í starfsemi kirkjunnar. Mikilvægt er að fermingarbörn upplifi sig ekki sem gesti í söfnuðinum sínum heldur sem fullgilda meðlimi í samfélagi Krists. Kirkjan er andlegt heimili okkar og allir þurfa að finna sér rými innan veggja hennar.

Sr. Bolli Pétur Bollason prestur í Laufási kemst svo að orði;

„Kirkjan er heimili og þar er bæði líkamlegt og andlegt fóður. Hef aldrei kunnað almennilega við orðið kirkjugestir þó ég hafi reyndar stundum notað það sjálfur, en það er hreint ónýtt að upplifa sig gest á andlegu heimili sínu“

 Við hvetjum fjölskyldur fermingarbarna til að fylgja þeim til kirkju og eiga með þeim notalega stund á aðventunni. Mikið framboð er að viðburðum í flestum kirkjum landsins á þessum tíma árs og eitthvað við allra hæfi. Við sem tökum þátt í kirkjustarfi skulum einnig beina sjónum okkar sérstaklega að ungu fólki í kirkjunni yfir hátíðarnar. Hvað getum við gert til þess að bjóða þau velkomin?

Mætumst fagnandi í kirkjunni á aðventunni og leyfum birtunni að fylgja okkur í gegnum skammdegið. Í sameiningu.

Meðfylgjandi mynd er frá fermingarfræðslu á Laufási þar sem fermingarbörn komu saman á dögunum í kirkjunni og áttu saman notalega stund.

Gleðilega aðventu :)

10833848_10152636750043893_1419841653_n

 

Hvað er vinur?

Í fermingarfræðslu verður til samfélag.

Börn í fermingarfræðslu fatlaðra eru átta núna í vetur. Þau koma saman einn laugardagsmorgun í mánuði og eiga saman notalega stund. Allir leggja eitthvað á borðið og foreldrar og systkini fermingarbarnanna koma með og taka þátt. Þau hlæja, syngja og njóta þess að eyða tíma með fólkinu sínu og prestinum.

Umræðan snýst gjarnan um eitthvert þema, það sem fermingarbörnin hafa unnið með þá vikuna í fræðslunni sinni og í fermingarfræðslu er talað um allt. Allt hversdagslegt. Allt sem er yfirnáttúrulegt. Og allt mannlegt. Í þetta sinn var viðfangsefnið vináttan. „Hvað er vinur? Hvernig hegðum við okkur gagnvart náunga okkar? Hvernig sýnum við væntumþykju í verki?“

Jú! Við brosum. Við hrósum. Við hjálpumst að. Við horfum í augun hvort á öðru. Við hlæjum saman, hvíslumst á, leikum og lifum. Boðskapurinn í Nýja testamentinu í bæði kærleiksboðorðinu sem og gullnu reglunni getur vel vísað til vináttunnar og gefið vísbendingu um á hverju kærleiksríkt vináttusamband ætti að byggja á..

Vináttan er nefnilega samband sem byggist á frelsi til þess að þroskast og hún er leið til þess að boða og fanga kærleikann sem felst í sköpun Guðs. Hún er raunveruleg ást.

Vináttan er svo merkileg og hún er svo góð því hún er stöðug áminning um von og það góða í lífinu. Og það merkilega er að andstæðan við vin og vináttu er ekki óvinur eða óvild, heldur ókunnugur og það ókunnuga. Því útilokar vináttan ekki það ókunnuga heldur tekur það að sér og snýr því upp í hið gagnstæða.

Allt samtal um kristna trú fléttast saman við okkar eigin lífsreynslu, þekkingu og menningu. Lífsleikni. Guð birtist okkur í öllum kærleik sem við upplifum og framkvæmum sjálf.

Og Guð er bæði vinur og vinkona. Náungakærleikurinn sem Jesús sjálfur sýndi samferðafólki sínu er enn í dag áþreifanlegur.

Í fermingarfræðslu eru allir velkomnir og fræðslan ætíð kennd á forsendum nemandans sjálfs. Komið og verið með í samfélagi, samfélagi vináttu.

„Gefið þessu séns!“

Haukur Hákon var bara 5 mánaða gamall þegar hann var ættleiddur til Íslands frá Indlandi. Hann er 14 ára í dag og fór fyrir nokkru síðan að hafa mikinn áhuga á því að fræðast um uppruna sinn og í framhaldinu trúarbrögð heimsins.

Þegar að því kom að Haukur átti að fara að ganga til prests og fermast var hann tvístígandi. Þrátt fyrir að hafa eytt töluverðum tíma í kirkjunni sinni á yngri árum velti hann fyrir sér hvort þessi ferming væri eitthvað fyrir hann og fyrir hvað kristin trú stæði yfir höfuð?

Foreldrar Hauks komu með uppástungu! Hann myndi taka þátt í fermingarfræðslu í kirkjunni sinni og þannig mögulega fá svör við þeim spurningum sem á honum lágu. Ákvörðunin væri svo hans um vorið hvort hann kysi að fermast eða ekki. Haukur samþykkti og tók fullan þátt í öllum stundunum. Hann las kennslubókina, var duglegur að spyrja spurninga og lagði sig fram við öll þau verkefni sem lögð voru fyrir.

Skemmst er frá að segja að fermingarfræðslan kom honum skemmtilega á óvart. Hún snérist ekki um þurran utanbókarlærdóm og hún snérist um meira en boðorðin 10. Haukur lærði að Guð tekur þátt í hverjum degi með okkur og Guði er ekkert óviðkomandi í elsku sinni og kærleika til okkar.

Á Hvítasunnudegi var Haukur fermdur. Sólin skein og dagurinn var yndislegur í alla staði. Ekki skemmdi fyrir að Haukur átti afmæli þennan sama dag og fékk aukakoss frá öllum veislugestum fyrir vikið.

Haukur er með skilaboð til verðandi fermingarbarna sem mögulega eru tvístígandi um hvort þetta sé eitthvað fyrir þau. „Gefið þessu séns!“

HVAÐ ER VENDINÁM Í FERMINGARFRÆÐSLU?

IMG_0399

Fermingarfræðslu er ætlað að fara yfir helstu grunnhugtök kristinnar kirkju og samfélags og útskýra mismunandi athafnir kirkjunnar með það í huga að virkja, kenna og vekja. Fjallað er meðal annars um hugtök kristinnar trúar, menningu og fjölmenningu, bænina, trúarlíf og sjálfsmynd og aðstæður fermingarbarnanna.

Í haust tóku sumar kirkjur og fræðarar upp vendinám í fermingarfræðslu en vendinám er þegar fræðarar/prestar taka upp fyrirlestra, setja á námsvef nemenda og heimavinnan fer fram í kennslustofunni í formi spennandi og ólíkra verkefna.

Námsvefurinn sem fermingarbörnin hafa notast við í vetur heitir www.fermingarfræðsla.is og skiptist í 16 fyrirlestra sem byggjast á nýrri kennslubók í fermingarfræðum sem heitir Con Dios. Auk fyrirlestranna eru biblíusögur, bænir og verkefni inn á vefnum.

En afhverju er vendinám sniðugt í fermingarfræðslu?

Jú! Vendinám býður upp á áhrifaríka og nútímalega kennsluhætti og aðferðir með markvissari fræðslu. En aðferðin gefur aukna yfirsýn og miðar að þörfum nemandans og einstaklingsmiðuðu námi og eykur samstarf við foreldra. Með þessari aðferð er hægt að ná bæði til þeirra barna sem eru í staðnámi og svo til þeirra sem eru í fjarnámi og til þeirra sem eru í þéttbýli og dreifbýli!

Fermingarbörnin kynnast kirkjunni og prestunum sínum á annan og skemmtilegri hátt í verkefnavinnu í fermingartímanum, þau geta nálgast og hlustað á kennsluefnið hvar og hvenær sem er og eins oft og þau þurfa og vilja. Einnig hentar vendinám jafnt þeim fermingarbörnum sem eiga auðvelt með bóklegt nám sem og þeim sem glíma við námsörðugleika.

Fyrir foreldra er vendinám fermingarbarnsins leið til þess að geta tekið aukinn þátt í fermingarfræðslunni með börnunum þegar þeim hentar en efnið myndar t.d. snertiflöt til þess að ræða flókin málefni. Auk þess er auðveldara fyrir foreldra að kynnast kennsluefninu og mun sýnilegra samband verður á milli heimilis og kirkju sem gerir allt miklu skemmtilegra og frábærara!

 

 

 

 

 

 

Ferming er ekki útskrift, heldur innskrift

Þessi frábæri maður heitir Vilhjálmur Karl Haraldsson og er kallaður Villi Kalli. Hann veit hversu mikilvægt það er að tala um einelti og þora að segja frá þessum hræðilega vanda en hann hefur verið að fræða fermingarbörn í vetur um sína reynslu og hafa þau tekið honum virkilega vel.

Villi Kalli lenti í átakanlegu einelti á sínum skólaárum, einelti sem hafði djúpstæð áhrif og tók sinn toll allt til dagsins í dag en hann hefur unnið virkilega mikið í sjálfum sér og stendur uppi sem hetja í sínu lífi :)

Allir lenda í einhverju eins og Villi Kalli segir og það er svo mikilvægt að við vitum og gerum okkur grein fyrir að við erum einstök og trúin og kirkjan okkar er skjól. Leyfum Villa Kalla að segja ykkur aðeins frá þessu sjálfur…

Hlutverk fermingarbarna í kirkjunum sínum

Fermingarbörn

Markmið fermingarfræðslu er meðal annars að virkja ungmenni í starfi kirkjunnar, starfi sem vekur með þeim áhuga og jákvæða sýn á kirkjuna sína. Á meðan á fermingarfræðslu stendur fá fermingarbörn því oft hlutverk í kirkjunni sinni og aðstoða til dæmis við messur og guðsþjónustur.

Á myndinni eru fermingarbörn í Breiðholtskirkju. Þau voru sjálfboðaliðar í Tómasarmessu í kirkjunni sinni og stóðu sig með prýði. Eitt verkefna þeirra var að dreifa steinum til kirkjugesta.  Til hvers? Jú, hver og einn í kirkjunni gat velt steininum í lófa sér, hugsað sér bænarefni og lagt svo steininn í stóra körfu við hlið altarisins. Karfan sameinaði þannig bænarefni safnaðarins. Á sama hátt og við erum öll sameinuð í Kristi.

Þannig virkar nefnilega kirkjan okkar, það eru ekki bara prestarnir sem halda söfnuðinum uppi heldur fólkið í söfnuðinum. Allir geta fengið hlutverk og tilgang og prestarnir fagna öllum sem vilja vera með í samfélagi kirkjunnar. Þess vegna er um að gera að skoða hvað er í boði í þínum söfnuði og gá hvort það sé eitthvað sem þig langar að taka þátt í eða aðstoða með á einhvern hátt? Einnig eru góðar hugmyndir og ábendingar vel þegnar og margt gefandi og gott grasrótarstarf kirkjunnar hefst einmitt þannig.

Prestar og annað starfsfólk kirkjunnar er virkilega þakklát fyrir aðstoð unglinganna og annarra sem leggja kirkjunni lið og launin eru þau bestu! Kærleikur og góð samvera og kaffi, djús og kex að athöfn lokinni :)

„Við viljum bara segja takk!“

10735761_10152542345108893_1066081950_n

Þetta eru Ronald 24 ára og Irene 19 ára. Þau eru komin alla leið frá Úganda í Afríku hingað til Íslands. Þau höfðu aldrei stigið fæti í flugvél né ferðast til annars lands en þau ákváðu samt að fara í þetta langa ferðalag á vegum Hjálparstofnunar Kirkjunnar til þess að færa fermingarbörnum á Íslandi skilaboð. Og skilaboðin eru einföld; „Takk!“

Undanfarin ár hafa íslensk fermingarbörn tekið höndum saman, gengið í hús og safnað peningum sem renna óskertir í að byggja brunna í Afríku. Þannig kemst heimafólk í hreint vatn án mikillar fyrirhafnar og án þess að þurfa að sækja það langa leið.

Ronald og Irene eru heppin. Þau fengu styrk frá hjálparsamtökum til þess að fara í skóla. Ronald hefur meira að segja lokið háskólanámi sem gerir hann að menntaðasta manninum í bænum sínum. Irene þurfti að hætta í námi til þess að hugsa um yngri bræður sína þegar foreldrar hennar dóu en hana dreymir um að komast aftur í nám. Þá þarf hún ekki að giftast ríkum manni til að hugsa um fjölskylduna sína. Hún segir íslenskum fermingarbörnum að stúlkur í Úganda fá fæstar tækifæri til að menntast og ætlast sé til að þær gifti sig um 18 ára. „Er það þannig hjá ykkur líka?“ spyr hún fermingarbörn. Nei, íslenskum fermingarstúlkum finnst hæpið að þær gifti sig svo ungar.

Ronald og Irene þekkja af eigin raun hvað það er mikilvægt að hafa hreint vatn í heimabyggð. Þannig geta börn eytt tíma sínum í annað en að sækja vatn fyrir eldra fólkið. Eytt tíma sínum í að mæta í skóla og læra og til þess að leika sér og vera börn.

Margt smátt gerir eitt stórt. Framlag fermingarbarna hefur hjálpað þúsundum ungmenna eins og Ronald og Irene. Takk fermingarbörn!

 

 

Guð elskar þig eins og þú ert

Þetta er hann Þorgrímur, kallaður Toggi. Við kynntumst honum þegar hann kom í fermingarfræðslu og var með vitnisburð og söng og spilaði fyrir fermingarbörnin.
Málið er nefnilega það að Toggi uppgötvaði fyrir stuttu að Guð elskar hann nákvæmlega eins og hann er og auðvitað samdi þessi snillingur lag um það ☺

Toggi hefur verið að tala við fermingarbörn undanfarið og frætt þau um skaðsemi vímuefnaneyslu en hana þekkir hann af eigin raun og eitt það áhrifaríkasta sem hann sagði við fermingarbörnin er að hann hefur staðið í þeirra sporum. Hann hefur verið fermingarbarnið sem hlustaði á mann segja sögu sína um skaðsemi vímuefna en hugsaði “vá, hvað þessi maður er heimskur, þetta kemur aldrei fyrir mig” en svo varð þetta sagan hans…sem endaði þó sem betur fer vel. En það er nauðsynlegt að við séum ekki hrædd við að ræða lífið í fermingarfræðslunni, bæði elsku þess og ógnir, því Guði er ekkert óviðkomandi og Guð elskar alla jafnt og mætir okkur í öllum aðstæðum. Það er eitt af því stórkostlega og merkilega við Guð 😉